Ég efast um að þeir sem eru að bisa á stjórnmálasviðinu hafi það til brunns að bera er nauðsyn krefur. Þeir sem munu taka við að bisa eru af sama sauðahúsi og þeir sem nú bisa, að mögulega Lilju Mósesdóttur undanskilinni. Einnig er of snemmt að dæma Sigmund Davíð og nokkra aðra óþekkta en langflestir er komu vel út úr prófkjörum verða seint taldir ferskir vindar í íslenskum stjórnmálum.
Nauðsyn krefur/réttlátt er:
1. Að færa peninga og völd frá fyrirtækjum/hinu opinbera til fólksins í landinu
1a. T.d. með niðurfærslu á húsnæðislánum einstaklinga. Sanngjarnari leiðin er sú að hafa fasta krónutölu þótt hin leiðin kunni að vera hagfræðilega skynsamlegri með tilliti til kerfisins í heild og þá sérstaklega húsnæðiskerfisins. Í því ljósi kann að vera skynsamlegt að miða við hærri krónutölu en 4 milljónir eins og Lilja Mósesdóttir reiknaði út frá sanngjörnum forsendum helmingaskipta á verðtryggingarálagi tiltekins tímabils.
1b. Afnám verðtryggingar.
1c. Lækkun skattbyrði tekjulægri hópa og hækkun skattbyrði hjá tekjuhærri hópum. Ekki aðeins tekjuskatti heldur öllum þáttum skattkerfisins, svo sem tekjutengingar bóta, eignaskatt og erfðafjárskatta - sem ætti að huga sérstaklega að í ljósi aðstæðna.
2. Niðurskurður hjá hinu opinbera sé framkvæmdur á skynsaman máta.
2a. Forðast verður með öllu að fjölga atvinnulausum svo nokkru nemi. Langtímaatvinnuleysi hefur ömurlegar afleiðingar.
2b. Ná má fram hagræðingu með sanngjörnum og jákvæðum hætti, t.d. með því að stytta vinnutíma. Franska byltingin, sem fyrir það fyrsta var misráðin, hefur aldrei náð frelsistakmarki sínu fyrir almenning sem stritar líkt og í þrældómi nú sem fyrr. Ríkisvaldið þarf nauðsynlega að skera niður og nýta má það tækifæri til þess að stytta vinnutíma fólks. Hjá langflestum starfsmönnum minnka afköst ekki í jöfnu hlutfalli við tímaskerðinguna en sums staðar þarf nauðsynlega að bæta upp styttinguna með breyttu vaktafyrirkomulagi og ráðningum á móti til þess að manna vaktir og þess háttar. Umtalsverðri hagræðingu ætti eftir sem áður að nást í slíkum tilvikum auk þess sparnaðar sem næst hjá þeim sem vinnutíminn er styttur hjá án kostnaðar á móti. Sparnaður hins opinbera af slíkri aðgerð gæti verið umtalsverður. Mikilvægt er að hafa í huga að stytting á vinnutíma merkir að fólk vinnur minna en fær sömu eða álíka laun. Miðað við núverandi aðstæður mætti hugsa sér að fólk sættist á að stytta vinnutíma sinn og lækka í launum en þó ekki að fullu miðað við gefna styttingu.
O.fl. svo sem má sjá í fyrri tillögum um breytingar á skattkerfinu.