Ást á örlögum

5.4.09

Rannsóknin á orsökum bankakreppunnar er komin á nýtt stig því nú er auglýst á atvinnusíðum mbl.is eftir sakstoðarsaksóknara! Ef sakstoðarsaksóknarinn leysir ekki dulráðarfullgátuna er málið, eins og marga hefur grunað, í hnút eins og aðrir skuldabréfavafningar sem áttu hlut í falli bankanna.

Ég efast um að þeir sem eru að bisa á stjórnmálasviðinu hafi það til brunns að bera er nauðsyn krefur. Þeir sem munu taka við að bisa eru af sama sauðahúsi og þeir sem nú bisa, að mögulega Lilju Mósesdóttur undanskilinni. Einnig er of snemmt að dæma Sigmund Davíð og nokkra aðra óþekkta en langflestir er komu vel út úr prófkjörum verða seint taldir ferskir vindar í íslenskum stjórnmálum.

Nauðsyn krefur/réttlátt er:

1. Að færa peninga og völd frá fyrirtækjum/hinu opinbera til fólksins í landinu
1a. T.d. með niðurfærslu á húsnæðislánum einstaklinga. Sanngjarnari leiðin er sú að hafa fasta krónutölu þótt hin leiðin kunni að vera hagfræðilega skynsamlegri með tilliti til kerfisins í heild og þá sérstaklega húsnæðiskerfisins. Í því ljósi kann að vera skynsamlegt að miða við hærri krónutölu en 4 milljónir eins og Lilja Mósesdóttir reiknaði út frá sanngjörnum forsendum helmingaskipta á verðtryggingarálagi tiltekins tímabils.
1b. Afnám verðtryggingar.
1c. Lækkun skattbyrði tekjulægri hópa og hækkun skattbyrði hjá tekjuhærri hópum. Ekki aðeins tekjuskatti heldur öllum þáttum skattkerfisins, svo sem tekjutengingar bóta, eignaskatt og erfðafjárskatta - sem ætti að huga sérstaklega að í ljósi aðstæðna.
2. Niðurskurður hjá hinu opinbera sé framkvæmdur á skynsaman máta.
2a. Forðast verður með öllu að fjölga atvinnulausum svo nokkru nemi. Langtímaatvinnuleysi hefur ömurlegar afleiðingar.
2b. Ná má fram hagræðingu með sanngjörnum og jákvæðum hætti, t.d. með því að stytta vinnutíma. Franska byltingin, sem fyrir það fyrsta var misráðin, hefur aldrei náð frelsistakmarki sínu fyrir almenning sem stritar líkt og í þrældómi nú sem fyrr. Ríkisvaldið þarf nauðsynlega að skera niður og nýta má það tækifæri til þess að stytta vinnutíma fólks. Hjá langflestum starfsmönnum minnka afköst ekki í jöfnu hlutfalli við tímaskerðinguna en sums staðar þarf nauðsynlega að bæta upp styttinguna með breyttu vaktafyrirkomulagi og ráðningum á móti til þess að manna vaktir og þess háttar. Umtalsverðri hagræðingu ætti eftir sem áður að nást í slíkum tilvikum auk þess sparnaðar sem næst hjá þeim sem vinnutíminn er styttur hjá án kostnaðar á móti. Sparnaður hins opinbera af slíkri aðgerð gæti verið umtalsverður. Mikilvægt er að hafa í huga að stytting á vinnutíma merkir að fólk vinnur minna en fær sömu eða álíka laun. Miðað við núverandi aðstæður mætti hugsa sér að fólk sættist á að stytta vinnutíma sinn og lækka í launum en þó ekki að fullu miðað við gefna styttingu.

O.fl. svo sem má sjá í fyrri tillögum um breytingar á skattkerfinu.

6.3.09

Ég skil ekkert í þessum stjórnmálamönnum. Hvar eru stjórnmálamenn með hugsjón um réttlátt, fagurt og metnaðarfullt samfélag? Hvert sem litið eru varðhundar yfirborðskenndar, úrkynjunar og græðgi. Reyndar eru varla hægt að tala um varðhunda því vörnin er hvorki fugl né fiskur!

Framsókn leggur til 20% flatan niðurskurð. Fyrstu tillögurnar sem ég heyri sem koma til móts við tap og tjón fólksins í landinu. Þá eru vinstrimenn á móti - það er nefnilega of dýrt! Hvernig er það, borgar fólkið í landinu ekki á endanum brúsann fyrir klúður stjórnmála- og auðmanna? Er þá eitthvað að því að dreifa byrðunum jafnar og yfir lengri tíma? Reyndar hef ég heyrt ein ágæt rök gegn 20% niðurfellingu skulda - að það gagnist efnafólki jafn vel og launafólki. En er þetta ekki tæknileg mótbára? Gengur hún gegn forsendum hugmyndarinnar? Kallar hún ekki bara á að sett sé þak á niðurfellinguna?

Tillögur vinstrimanna eru að fara í greiðsluaðlögun og mögulega leigja aftur eigið húsnæði. Hver vill lenda í slíkri aðstöðu? Hver lítur á þá leið sem lausn fyrir fólkið í landinu? Ekki fólkið í landinu.

Það má fara ótal aðrar leiðir í þessu öllu saman. Hækka barnabætur og vaxtabætur með þaki. Stilla af betur skattheimtu þannig að hún lendi meira á þeim sem eiga mikið af peningum fremur en lítið. Setja frítekjumark á fjármagnstekjuskatt og hækka prósentuna. Endurskoða erfðafjárskatt og setja hátt frítekjumark en háa prósentu umfram það. Halda sem flestu fólki í vinnu í stað þess að segja upp stórum hluta hjá hinu opinbera líka.

Vesturlönd hljóta að átta sig á því að grunnkerfið leiðir til ójafnvægis hvar lítill hluti samfélagsins eignast langt umfram nokkur skynsamleg mörk. Réttlæti og félagslegum stöðugleika verður að viðhalda með kerfislægri endurgjöf. Það er langt því frá ómögulegt að koma slíku kerfi á. Mögulega verður það ófullkomið en það eru ekki rök gegn því að lagfæra andfélagslegt kerfi.

2.3.09

Miðaldir eiga hug minn allan.

Hversu róttækar ákvarðanir er hægt að taka? Við hversu róttækum ákvörðunum er hægt að búast?

22.2.09

Hvað kostar, um það bil, launþegi með 300.000 krónur á mánuði? 

Hugsa mætti sér að 8.000.000 krónur myndu duga til þess að greiða góð laun auk allra gjalda, aukagreiðslna og hóflegs efniskostnaðar. Líklega er það ríflegt og hugsa mætti sér að greiða ögn lægri laun til skamms tíma. Látum það liggja milli hluta og notum 8 milljónir til viðmiðunar.

Tíu störf kosta 80 milljónir
Hundrað störf kosta 800 milljónir
Þúsund störf kosta 8 milljarða
Tíu þúsund störf kosta 80 milljarða

Sé það ríkisvaldið sem ræður fólk í vinnu á þessum tímum er kostnaðurinn mun minni þar sem flestir þeirra sem fengju vinnu væru að öðrum kosti á atvinnuleysisbótum - ríkið þyrfti eftir sem áður að úthluta sama fólki tekjur.

Þess má geta að ráðlegt er að 15 milljarðar fari í tónlistarhúsið, eflaust stór hluti þess í steypu, gler og járn. Yfirleitt tala íslenskir ráðamenn um að leggja í mannfrekar framkvæmdir á krepputímum. Vegaframkvæmdir, jarðgöng og viðhald eru þar yfirleitt það eina sem kemur til tals. Öll þessi störf eru kostnaðarsöm hvað varðar efni og tæki. Kennarar, sjúkraliðar, þroskaþjálfar, vísindamenn, rithöfundar og listamenn eru (eða geta verið) mikið mun ódýrari hvað efnis- og tækjakostnað varðar. Þessir hópar hafa sætt sig við of lítið lengi og fráleitt að láta þá sætta sig við minna.

Hvernig væri að leggja á hátekjuskatt og tekjutengdan fjármagnstekjuskatt og dreifa þeim fjármunum til hinna verr settari stétta?

Hvernig væri að verja störf fólksins í landinu? Hvernig væri að hugsa þessar skuldir til langs tíma? Sagt er að staða okkar sé litlu verri en Ítalíu fyrir hrunið. Hvernig væri að fara rólega í sakirnar?

Hvernig væri að ráða fólk í þjónustustörf (það má vel skilgreina þau til skamms tíma) þar sem fólk hefur vantað lengi?

Hvernig væri að skipuleggja skattlagningu þannig að hún hvetji til samfélagslegrar samstöðu fremur en einstaklingshyggju og upplausnar?

Hvernig væri að hætta að verja það þjóðskipulag sem stefndi í óefni?

Hvernig væri að brjóta rimlana og hlekkina?

Enginn stjórnmálamanna þessa lands er sammála mér - enginn.

15.2.09

Krafan um kosningar skilaði okkur kosningum. Kosningarnar virðast skila okkur endurröðun, endurorðun og endurtekningu.

Endurröðun á listum flokkanna. Endurnýjun virðist lítil sem engin; frambjóðendur í prófkjörum flokkanna hafa tekið þátt í þeim áður eða flokksstarfi til lengri tíma. Gildir krafan um endurnýjun ekki um stjórnmálamennina sjálfa heldur aðeins um undirmenn þeirra, embættismennina?

Endurorðun á stefnu flokkanna. Hvergi hef ég heyrt nýja stefnu hjá flokkunum ef frá eru talin fálmkennd viðbrögð við bankakreppunni - sem flest eru til þess fallin að endurreisa fyrra ástand og stoppa á götin.

Endurtekning síðustu kosninga blasir við: Vinstri flokkarnir slá í gegn í skoðanakönnunum fyrir kosningar en Sjálfstæðisflokkurinn vinnur sigur í kosningunum sjálfum.

Stjórnmálaflokkarnir virðast mér ekki sækjast eftir nýjum hugmyndum og nýju fólki. Ekki þori ég að fullyrða um hvernig þeir tækju á móti fólki sem hefur hingað til ekki treyst sér til að starfa á þeim vettvangi af ýmsum ástæðum. Sjálfur hafði ég áhuga á því að taka þátt á stjórnmálavettvangnum og vafalaust fleiri sem, þrátt fyrir allt tal um endurnýjun og nauðsyn nýrrar hugsunar, mæta hindrunum. Fyrsta hindrunin er sú hversu stuttur fyrirvari er á boðun kosninganna. Fólk hefur í besta falli þrjár til fjórar vikur til þess að taka ákvörðun og undirbúa sig fyrir prófkjörsslag. Langflestir þurfa til þess lengri tíma. Önnur hindrun er sú að flokkarnir virðast enn sem komið er óákjósanlegur vettvangur til þess að koma nýjum hugmyndum á framfæri. Ekkert bendir til þess að flokkarnir séu nú opnari en áður; að þar hafi innbyrðis valdatöfl verið lögð af. Loks stendur í vegi fyrir fólki íhaldssemi sem lýsir sér í því að hinir og þessir geti ekki boðið sig fram vegna þess að þeir séu ekki nægilega stjórnmálalegir eða hugsi sér að bjóða fram fyrir ómögulegan flokk. Aðalatriðið er að fá nýtt fólk með nýja hugsun, aðra en þá sem hefur ríkt á stjórnmálasviðinu of lengi. Fólk sem er ólíkt stjórnmálamönnum eins og þeir eru núna er einmitt ákjósanlegt til þess. Hvar fólk sem hefur andúð á valdabrölti og tækifærisstjórnmálum skiptir enn minna máli.

Krafan um endurnýjun lést þegar stjórnmálamennirnir urðu við kröfunni á eins yfirborðslegan máta og mögulegt var: Að reka sendissveinana í FME og SÍ.

Örfá mál er ættu að vera á stefnuskrá flokka í næstu kosningum - án undanbragða:

1. Jafna skiptingu gæða samfélagsins með róttækum hætti.
2. Jafna tekjur manna.
3. Eyða tilhneigingu markaðskerfisins til þess að leiða fé í hlutfallslega auknum mæli til fjármagnseigenda fremur en launþega. Það er óréttlátt hvað fjármagnseigendur (sem þegar eru yfirleitt vel settir) eru tryggð úrræði til þess að viðhalda auðæfum sínum. Má í því sambandi nefna verðtryggingu, lága skattprósentu af fjármagnstekjum og skort á samfélagslegri ábyrgð og hugsun í rekstri fyrirtækja - hversu mikið lögðu fjármagnseigendur til hliðar fyrir vænta kreppu hlutfallslega við það sem fór í snekkjur, bíla og annan lúxus?

12.2.09

Upp er runnin stund marxista, kommúnista, sósíalista og gamaldags sósíal-demókrata. Verst að allir þessir hópar eru útdauðir, úthrópaðir og niðurlægðir. Enginn ljáir þessum hópum eyra og reyndar ekki rödd heldur.



11.2.09

Byltingar þurfa eflaust aðdraganda og tíma til gerjunar. Ólíklegt er að nægilega samstæður hópur um róttækar breytingar finnist hérlendis.

Tilkynningar um framboð í prófkjörum eru farin að berast fjölmiðlum landsins. Frambjóðendur eru að meginstefnu til þeir sömu eða af sama tagi.

Habitus stjórnmálamanna skiptir máli. Stjórnmálavettvangurinn laðar að sér ákveðna tegund habitusa. Sérstakt átak þarf til þess að laða að ólíka habitusa og enn stærra átak þarf til að breyta leikreglum og viðmiðum vettvangsins.

Skynsemisvæðingin hefur leitt af sér ómanneskjulegt siðferði.

Lögfræðingar þurfa að sætta sig við breytingar á þjóðskipulagi er kollvarpa fagi þeirra. Birtingarmynd hinnar köldu skynsemisvæðingar er einna helst í lagabálkum og starfsaðferðum á vettvangi laga. Samfélagsleg skipan, órökvísi, tilfinningar og félagslegt réttlæti þurfa að vera okkar leiðarljós.

Hin óréttláta misskipting lénsveldisins var a.m.k. manneskjulegri en hin vélræna misskipting kapitalismans. Menningin hefur beðið hnekki síðan þá. Nothing personal, only business!


9.2.09

Léttir, þvílíkur léttir. Loksins er Ísland í öruggum höndum og stefnir fram á við. Bjartir tímar framundan. Hvursu lengi við höfum ekki beðið í ofvæni eftir metnaðarfullum tillögum um þjóðfélagsskipan.

Eilíf vonbrigði. Núverandi ríkisstjórn er umboðslaus en ákveður samt sem áður að taka stórar ákvarðanir. Fyrst svo er á annað borð sakna ég þess að ekki séu teknar djarfari ákvarðanir er varða þjóðskipulagið.

Þetta er sama færsla og í gær.

Þráinn Bertelson hætti í framsóknarflokknum vegna ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að styðja Íraksstríðið. Nú hefur Þráinn snúið aftur í framsóknarflokkinn og sagði í tilefni þess: Römm er sú taug. Betur færi á að segja: Löng er sú krumla.

Fréttavefir landsins hafa sagt frá því undanfarið að Lúðvík Bergvinsson hafi ekki komið til álita sem ráðherraefni vegna fjármála sinna. Jóhanna Sigurðardóttir kom loks Lúðvíki til bjargar og sagði að hann hefði aldrei komið til greina. Það á ekki af Lúðvíki að ganga.

Vindurinn er frábær.

7.2.09

Veikburða er sá hópur fólks sem kallar eftir breytingum í okkar þjóðfélagi. Hin þunga undiralda ber með sér ákall um ábyrgð og bráðaúrræði til bjargar þeim sem verða fyrir hvað mestum áhrifum af bankahruninu - arðráni undanfarinna ára og áratuga - út frá þeim viðmiðum er voru til grundvallar arðráninu sjálfu.

Bylting er ekki í augsýn; beðið er eftir því að allt komist í sama far. Róttækustu tillögurnar að breytingum sem koma frá hinu opinbera eru:

1. Seðlabankastjóri verði einn og hagfræðimenntaður (a.m.k. með MA - var það ekki heldur aumt?).

2. Kallað verði saman stjórnlagaþing hvar helstu umræddu breytingar snúa að hlutverki forsetans (fyrst og fremst skýra það), þrískiptingu ríkisvaldsins (að færa framkvæmdavaldið frá löggjafarvaldinu) og loks um þjóðaratkvæðagreiðslur (sem er í raun tengdara ESB en lýðræðishugmyndum).

3. Breytingar verði gerðar á kosningalöggjöf svo kjósa megi um einstaklinga eða milli einstaklinga á listum flokka (einstaklingsvæðing er það sem kemur upp í huga mér).

Helstu markmið hinna metnaðarfullu, framsýnu og byltingarsinnuðu stjórnmálamanna hér á landi eru annað hvort þau sömu og voru fyrir bankahrunið eða til þess fallin að endurreisa það ástand sem var í þjóðfélaginu fyrir bankahrunið.

Fáar eru þær raddir og veikburða sem kalla eftir breytingum! Einn og ein minnist á firringuna, einstaklingshyggjuna, efnishyggjuna, græðgina og metnaðarleysið sem einkenndi þetta þjóðfélag fyrir bankakreppuna. Sumir heyra aðeins í sjálfum sér en leyfa sér að trúa því að fólkið í kringum sig sé sama sinnis.

Þjóðfélög manna hafa breyst mikið í aldanna rás; snögglega og rólega. Grundvöllur og skipulag núverandi þjóðskipulags er að stórum hluta afturför, stefnir í ranga átt (bæði fyrir og eftir bankahrun) og hefur fyrir löngu sannað hversu andsamfélagslegt það er.

Kapitalisminn, lýðræðið, neyslusamfélagið, efnishyggjan, einstaklingshyggjan og lágkúran - enginn kvartar yfir járnbúrinu heldur hinu að óreiðumenn og daufir stjórnmálamenn hafi opinberað veikleika rimlanna!

Engin von. Bið Godot var tífalt innihaldsríkari en sú auma þráhyggja að eiga aftur fyrir sólarlandaferðinni.

A.: Blessaður!
B.: Hæ.
A.: Veður maður!
B.: Þokkalega.
A.: Þetta er lífið maður!
B.: Costa del Sol, Costa del Sol.
A.: Þokkalega maður.

Næstu setningar samtalsins eru ekki við hæfi barna.

Ég sé það núna, það verður að leyfa persónukjör STRAX og nýr seðlabankastjóri verður að redda efnhagskerfinu, annars fer allt til fjandans.

Hér er ein tillaga að löggjöf í rétta átt: Spilaskylda. Allar fjölskyldur verða að spila saman, a.m.k. í tvo tíma á hverju sjö daga tímabili. Óheimilt er að nota rafknúin spil, s.s. tölvuspil, í meira en 50% tilvika.

Hér er önnur: Klám er bannað. Í alvöru.

Hér er önnur: Margfaldur launamunur er bannaður. Greinargerð með lagafrumvarpinu: Fólk skiptir meira máli en svo að menn geti leyft sér þá lygi að sumir einstaklingar skipti margfalt meira máli en aðrir.

2.2.09

Tími. Allt hefur sinn tíma og tekur tíma. Ríkisstjórnin hefur gefið sér nauman tíma.

Fyrir nokkrum árum var vinsælt í stjórnmálum að tala um skort á framtíðarsýn. Samfylkingin var víst eini flokkurinn með slíka sýn, aðrir voru þá nærsýnir. Umræðan á þeim tíma var pólitísk (í þessu samhengi hefur orðið merkinguna innantóm!). Ég mundi eftir þessari umræðu er ég var að hugsa um stjórnmálin á leið í vinnuna í morgun. Það hefur virkilega skort á að hugsað sé til langs tíma hjá hinu opinbera. Allar áætlanir eru til eins árs og stjórnmálaflokkar hugsa um hvaða loforð megi efna á þremur árum.

Talandi um þessi loforð. Þau eru samin í málefnanefndum sem ræða ekki saman heldur semja hver fyrir sitt leyti hverjar efndir eiga að vera komist flokkur þeirra til valda. Niðurstaðan er augljóslega samhengislaus. Ofan á það bætist að stjórnmálamennirnir fara sjaldnast eftir landsfundarályktunum sínum nema að því leyti sem þeim hugnast. Og loks þarf að semja um öll atriði við annan flokk.

Hérlendis sem annars staðar þarf trausta stjórn og áætlun til nokkurra ára sem er vel ígrunduð og sniðin eftir heildarhugsun. Það þýðir ekki að að áætlunin sé ósveigjanleg, heldur unnið er að markmiðum til lengri tíma.

Gera þarf ráð fyrir skakkaföllum, tryggja grunnstoðir samfélagsins og gæta að réttlæti eftir besta megni.

Á Íslandi jukust ríkisútgjöld á góðæristímabili en laun umönnunarstétta er enn skammarlega lág. Fjöldi nemenda á kennara er hár á öllum skólastigum. Á sviði menninga eru styrkir lágir og fáir. Þess fyrir utan fer stór hluti þeirra til listamanna sem þegar hafa sannað sig og eiga greiðari aðgang að fjármagni annars staðar frá (sem væri svo sem í góðu lagi ef meira væri lagt í málaflokkinn í heild). Skattar hækkuðu að raungildi og hlutfallslega meira á lægstu tekjuhópana en lækkuðu á þá tekjuhæstu. Launabilið breikkaði. Íslenskt mál stendur höllum fæti. Dregið var úr tekjujöfnunarhluta skattkerfisins. Tollar eru háir og hamlandi (bæði fyrir okkur og til jöfnunar lífsgæða í heiminum).

Allar fullyrðingarnar hér að ofan má orða öðruvísi sem bendir til þess að siðferðið og réttlætið sér margra laga: Í stað þess að segja að laun umönnunarstétta séu skammarlega lág er hægt að segja að: Laun ýmissa hópa hafa hækkað án nokkurs innra og ytra ábyrgðarsamræmis (svo sem hversu mikið erfiðara er í raun og veru að passa peninga en börn). Og svo framvegis.

Ríkið lagðist ekki í aukna skuldsetningu heldur dróg úr vaxtakostnaði sem hlutfalli af tekjum sínum. Atvinnuleysi var lágt og meira fé var lagt í ýmis verk. Það má ekki gleyma því sem vel var gert. Einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að það hafi skort á einhverja heildahugsun hvað varðar verkefni hins opinbera. Slíkt kemur síst á óvart þar sem sjálfstæðisflokkurinn leiðir hugann fremur að því að hið opinbera standi ekki í vegi fyrir einkaframtakinu.

Í rekstri hins opinbera hérlendis skortir heildarhugsun og sýn til langs tíma. Nauðsynlegt er að jafna tekjubilið og greiða sómasamlega fyrir þau störf sem eru mikilvæg. Samhliða því er sjálfsagt að gera ríkar kröfur um gæði og aukna færni, hvort sem er vegna hækkandi launa eða heilbrigðu metnaðarsjónarmiði. Gera þarf ráð fyrir skakkaföllum í framtíðinni og setja skynsamleg og réttlát mörk á öllum sviðum samfélagsins, ekki aðeins í viðskiptalífinu. Mannskepnunni líður mikið betur þar sem sanngjarnar hömlur eru í gildi, hömluleysi fer hverjum sem er illa (a.m.k. til lengri tíma en nokkurra klukkustunda). Ef þú ert póstmódernisti og heldur að allt sé leyfilegt, veltu fyrir þér hugtakinu fágun.

Fyrir nokkrum árum, líklega á svipuðum tíma og rætt var um skort á framtíðarsýn, þótti mér mikið fremur sem hið opinbera skorti metnað. Hvergi var að finna metnaðarfullar áætlanir um að ná ákveðnum markmiðum að liðnum tilteknum tíma. Hvernig væri nú að breyta því? Það er ekki lögmál að hið opinbera fylgi stefnu án innra og ytra samræmis.

Nú kann einhver að andmæla og segja sem svo að raunveruleiki stjórnmálanna sé með þeim hætti að slíkt heildarsamræmi og langtímastefna sé ómöguleg. Allir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn verða að huga að eigin hagsmunum í baráttu við aðra og því er aðeins hægt að ná með aðgerðum í núinu. Ekki er hægt að neita því að orsök vandans er sú sem sett er fram í andmælunum. Þessu má svara svona: Langtímastefna mótar viðbrögð við einstökum tilfellum í núinu. Eini munurinn á þessum tveimur aðferðum er samræmi/ósamræmi og eyðing hentistefnunnar.

Þá heyrast önnur andmæli: Stjórnmálaflokkarnir hafa traustar stefnur og stjórnmálamenn á þeirra vegum vinna í anda þeirrar stefnu. Lesendur mega velja á milli eftirfarandi svara við þessu (önnur veigameiri rök eru til, en óþörf):

A. Stjórnmálaflokkarnir hafa traustar stefnur og stjórnmálamenn á þeirra vegum vinna í anda þeirrar stefnu. Bwaahahahahahaha!

B. Stjórnmálaflokkarnir hafa þá augljóslega ekki haft nægilega góða stefnu fyrst aðstæður eru með þeim hætti sem raun ber vitni í þjóðfélaginu þessa dagana.

- - - - - - -

Svar djöfulsins við öllu hér að ofan er: Colosseum!